Rauða borðið - Lögregluríkið, brotleg skipafélög, JFK, líðan barna, föstudagspartýbíó og sálumessa
Rauða borðið - A podcast by Gunnar Smári Egilsson

Fimmtudagur 20. mars Lögregluríkið, brotleg skipafélög, JFK, líðan barna, föstudagspartýbíó og sálumessa Þátturinn hefst á umræðu sem spyr spurninga um hvort Ísland sé að verða lögregluríki og hvort aðgreining yfirstéttar og almennings sé að aukast. Við ræðum dóm gærdagsins þar sem níu mótmælendur sem beittir voru harðræði fá ekkert fyrir sinn snúð. Sigtryggur Ari Jóhannsson og Sara Stef Hildar mótmælendur ræða við Björn Þorláks. Hver myrti JFK er spurning sem margir vilja meina að aldrei hafi verið svarað. Guðjón Heiðar Valgarðsson og Haukur Ísbjörn, álhattamenn koma til Maríu Lilju og fara yfir CIA skjöl sem voru opinberuð í vikunni um morðið á JFK. Nokkur umræða hefur orðið um verðkannanir undanfarið. Við ræðum við Breka Karlsson formann Neytendasamtakanna um vöruverð, vexti og nýja niðurstöðu nefndar um áfrýjunarmál sem staðfestir sekt Samskipa og Eimskipa í samráðsmáli. Óli Hjörtur Ólafsson rekstrarstjóri hjá Bíó Paradís segir Lafeyju Líndal Ólafsdóttur frá Föstudagspartýsýningum og öðrum sýningum og uppákomum hjá kvikmyndahúsinu á næstunni. Að þessu sinni verður sýnd kvikmyndin Friday sem var vinsæl á tíunda áratug síðustu aldar. Líðan barna er okkur öllum hugleikin. Hulda Tölgyes sálfræðingur ræðir hvað við getum gert til að vinna gegn kvíða. Hulda safnar fé til að gefa út spil sem á að auðvelda börnum að tengjast fólki og umhverfi sínu. Við endum dagskrána á stórvirki sem fer fram í menningarheiminum um helgina þegar flutt verður sálumessa Tryggva M. Baldvinssonar upp úr Heimsljósi Halldórs Laxness í Langholtskirkju. Gríðarlegur fjöldi listamanna kemur að þessum viðburði. Að rauða borðinu koma til að ræða þennan viðburð Tryggvi M Baldvinsson tónskáld, Magnús Ragnarsson kór- og hljómsveitarstjóri og Hallveig Rúnarsdóttir söngkona.